Lúðurinn, íslensku auglýsingaverðlaunin, voru afhent í 36. sinn við hátíðlega athöfn síðastliðið föstudagsvöld fyrir fullu húsi í Gamla bíói.
Brandenburg - auglýsingastofa hlaut flesta lúðra á hátíðinni, alls 4, og er það fimmta árið í röð sem stofan er hlutskörpust. Brandenburg fékk meðal annars verðlaun fyrir herferðina „Það er kominn matur„ sem unnin var fyrir Heimkaup.is og fyrir mörkun og ásýnd fyrir vín- og kokteilbarinn Skuggabaldur.
„Við erum virkilega ánægð með árangurinn. Við leggjum mikið upp úr árangursdrifinni hugmyndavinnu og það er gaman að uppskera eftir því. Þetta er frábær hvatning til að halda áfram að búa til sterkt og vandað efni sem vekur athygli og nær árangri,” segir Sigríður Theódóra Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Brandenburgar.
Næst í röðinni kom Kontor Reykjavík með 3 lúðra. Kontor fékk lúður fyrir „Íslenskan er hafsjór“ sem gerð var fyrir Brim í flokknum vef- og samfélagsmiðlar – almennt og tvo lúðra í almannaheillaflokk herferð og kvikmynduð auglýsing fyrir herferð sína „Verum til“ sem unnin var fyrir Krabbameinsfélagið – Bleiku slaufuna. Þvínæst komu fjórar stofur með tvo lúðra hver; Hvíta húsið, Pipar\TBWA, Peel auglýsingastofa og Hér & Nú.
„Gaman að litla stofan Kontor hafi unnið næstflesta Lúðra af öllum auglýsingastofum landsins. Við höfum mikinn metnað fyrir öllu því sem við gerum, allt frá hugmynd til herferðar. Við erum hrikalega kát að deila þessum árangri með okkar frábæru viðskiptavinum. Það er einfalt að gera gott efni þegar við erum svona heppin með kúnna,” segir Sigrún Gylfadóttir Creative Director og annar eigandi Kontor.
Hér & Nú hlutu að auki Áruna, verðlaun sem veitt eru fyrir árangursríkustu markaðsherferð ársins. Herferðin var fyrir Flokkahappdrætti Happdrætti Háskóla Íslands. Þess ber að geta að Hér & Nú fékk allar tilnefningar í Áruna þetta árið eða þrjár talsins, þrátt fyrir fjölda innsendinga. Að lokum þá hlaut ný auglýsingastofa, Cirkus, sinn fyrsta Lúður á hátíðinni. Þann Lúður hlutu þau í flokki stafrænna auglýsinga fyrir jólakveðju til viðskiptavina KPMG á Íslandi, „Jólakveðja par Excelans“.
„Við erum gríðarlega ánægð með Árutilnefningarnar þrjár og ekki síst Áruna sjálfa sem Happdrætti Háskóla Íslands hlaut,” segir Kristján Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Hér & nú. “Happdrættið átti verðlaunin svo sannarlega skilið enda árangur þess ótrúlegur. Það hafa ekki selst fleiri miðar í flokkahappdrættinu í ríflega aldarfjórðung eða frá árinu 1995, sem er ekki síst merkilegt í ljósi þess að flokkahappdrætti heyra nánast sögunni til um allan heim.”
Styrktaraðilar íslensku auglýsingaverðlaunanna 2021 eru; Síminn, Morgunblaðið, K100, Digido, BUZZ, BILLBOARD, Brandr vörumerkjastofa, mbl.is, Datera, Margt Smátt, Nói Síríus og Birtingahúsið.